top of page
Search
  • Writer's pictureKristín Birna Ólafsdóttir

Að festa hreyfingu í rútínu

Flestir ef ekki allir eru meðvitaðir um mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna og vilja finna sér hreyfingu við hæfi. Sumum dugir að fá smá klapp og bakið og hvatningu til að koma sér af stað en það er ekki svo auðvelt fyrir alla. Sumir byrja reglulega í „átaki“ sem endist mislengi en aldrei til frambúðar, aðrir komast jafnvel aldrei á þann stað að fara í „átak“. En hvað er það sem veldur því að fólk endist ekki eða byrjar aldrei á hreyfingu jafnvel þó viljinn sé fyrir hendi? Það geta verið ýmsar skýringar á því en hér koma nokkrir punktar um það sem oft stoppar fólk af:

  • Markmiðasetning: Skortur á góðri markmiðasetningu er oft vandamálið. Það er ekki nóg að taka ákvörðun og setja sér almennt markmið eins og að „ætla að taka sig á.“ Það er mikilvægt að setja skýr og sértæk markmið sem eru á sama tíma raunhæf en krefjandi. Ef þú telur þig þurfa hjálp við markmiðasetningu eru margir sem geta aðstoðað þig við það en hér er hægt að lesa stutta grein um markmiðasetningu fyrir þá sem það vilja eða þurfa.

  • Tímaskortur: Margir telja sig ekki hafa tíma til að hreyfa sig. Ef þú hefur raunverulega ekki tíma til að hreyfa þig þarft þú virkilega að endurhugsa hvernig þú ert að lifa lífinu. Í flestum tilfellum er þó alveg hægt að koma hreyfingu inn í rútínu þó mikið sé að gera, það er bara spurning um ákvörðun, góða markmiðasetningu og smá skipulag.

  • Fólk ætlar sér of mikið of hratt: Hver þekkir það ekki að mæta í ræktina eftir langa pásu og ætla sér að sigra heiminn? Að vakna svo daginn eftir og geta ekki einu sinni sest á klósettið fyrir harðsperrum. Það er ekki skynsamlegt að fara of hratt af stað í hreyfingu og geta svo jafnvel ekki gert neitt í langan tíma vegna eymsla í líkamanum. Það er oft auðveldara sagt en gert, en það er mikilvægt að byrja rólega og byggja svo á því sem er gert smám saman.

  • Líkamlegur kvilli: Margir sem eru með krónísk vandamál í líkamanum versna þegar þau byrja að hreyfa sig eftir langa pásu. Þeir sem lenda í þessu gefast oft fljótt upp því þau finna ekki leiðir í kringum vandamálið. Raunin er þó sú að allir geta fundið hreyfingu við hæfi, sama hvert vandamálið er. Hvort sem þú ert bundinn við hjólastól, með krónískt bakvandamál eða ónýtt hné þá getur þú fundið þér hreyfingu sem hentar. Þeir sem eiga við krónísk vandamál að stríða geta þó notið góðs af því að fá aðstoð sérfræðings þegar þau eru að byrja að koma sér af stað því það er margt sem þarf að hafa í huga þegar verið er að vinna með meiðsli, eymsli eða aðra kvilla í líkamanum.

  • Andleg veikindi: Einstaklingur sem á við andleg veikindi að stríða getur átt erfitt með að koma sér af stað í reglubundna hreyfingu. Einstaklingur með þunglyndi getur til dæmis átt nógu erfitt með að koma sér framúr rúminu á morgnanna og hvað þá að mæta á æfingu. Einstaklingur sem þjáist af miklum kvíða getur fengið kvíðakast einfaldlega við tilhugsunina um æfingu. Þetta getur verið erfitt og flókið að vinna með en það er þeim mun mikilvægara að koma hreyfingu inn í rútínuna. Ef þú átt við andleg veikindi að stríða skaltu ekki hika við að leyta þér aðstoðar til að koma hreyfingu inn í rútínu. Ennfremur, þó þú átt sjálfur ekki við þennan vanda að stríða en þekkir einhvern sem gerir það skalt þú endilega vera sá sem tekur frumkvæðið að því að aðstoða viðkomandi við að koma hreyfingu inn í rútínuna.

Þó hindranirnar geta verið margar þá er alltaf hægt að finna leiðir! Ef eithvað af ofangreindu á við þig skaltu endilega finna leiðir til þess að leysa vandamálið og koma hreyfingu inn í reglubundna rútínu. Einnig má ekki gleyma því að finna sér eithvað sem manni þykir skemmtilegt og endist í til frambúðar. Það hentar ekki það sama fyrir alla en það eru ótrúlega margir möguleikar á skemmtilegri og fjölbreyttri hreyfingu. Ef þú telur þig þurfa aðstoð sérfræðings  til að koma þér af stað en veist ekki hvert þú átt að leita getur verið gott fyrsta skref að tala við heimilislæknir sem getur leiðbeint þér með næstu skref.







9 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page