top of page

Markmiðasetning

Flestir eru meðvitaðir um mikilvægi þess að setja sér markmið og eflaust kannast flestir við að hafa einhverntíman á lífsleiðinni sett sér markmið. Það er þó heldur oft sem fólki tekst ekki að ná markmiðum sínum. Ástæðan er oft sú að fólk setur sér of víðtæk og óljós markmið eins og til dæmis „ég vil léttast um 10 kíló á næsta ári“ eða „ég vil lifa heilbrigðara líferni.“ Þó þessi markmið séu góð eru þau ekki líkleg til árangurs vegna þess hversu óljós þau eru en  mikilvægt er að setja sér sértæk og skýr markmið sem einnig eru raunhæf en krefjandi. 

Þrjár tegundir markmiða
Mikilvægt er að greina á milli þriggja tegunda markmiða þegar verið er að setja markmið.  Þessar þrjár tegundir markmiða eru niðurstöðumarkmið, frammistöðumarkmið og ferilsmarkmið. Í niðurstöðumarkmiðum er áherslan fyrst og fremst á lokaniðurstöðuna (t.d. " að verða Íslandsmeistari"). Þó það sé gott markmið þarf að hafa í huga að það er háð miklu meiru en frammistöðu þess sem setur sér markmiðið. Til dæmis geta mótherjar eða aðrar utanaðkomandi aðstæður haft áhrif á þetta markmið.
Þess vegna er mikilvægt að setja sér einnig frammistöðumarkmið, þau eru ekki háð öðrum en þeim sem setja sér markmiðið. Dæmi um frammistöðumarkmið er að bæta styrk og snerpu, og ef frammistöðumarkmið eru sett og þeim náð, aukast líkurnar á því að niðurstöðumarkmiðið náist. Þriðja tegund markmiða, ferilsmarkmið, felur í sér einföld atriði sem einblína á að bæta ákveðna færni eða aðferð. Ferilsmarkmið hjálpar íþróttafólki að einbeita sér að ákveðnum atriðum í æfingum eða keppnum sem hjálpar þeim svo að ná frammistöðumarkmiði sínu.
Lykillinn að góðri og árangursríkri markmiðssettningu er að nota allar þrjár tegundir markmiða.

SMART markmiðin
Einnig er gott að markmiðin séu „SMART.“ Það er að segja að þau séu sértæk, mælanleg, fáanleg, raunhæf og tímabundin. Sumir bæta við S-i í lokinn og kalla þetta SMARTS markmið - þá stendur síðasta S-ið fyrir "sjálfsprottin" sem ég tel vera mjög mikilvægt þegar kemur að því að ná árangri! Það er að markmiðið sé komið frá þér sjálfum/sjálfri en ekki einhverjum utanaðkomandi.

 

Langtíma og skammtímamarkmið
Einnig er gott að setja sér bæði langtíma- og skammtímamarkmið. Langtímamarkmið er til dæmis að ætla sér á Ólympíuleika eftir fjögur ár en skammtímamarkmið getur verið að ætla sér að bæta start upp úr startblokk í spretthlaupi fyrir næsta  mót. Margir hafa notast við markmiðatröppurnar þar sem í neðsta þrepi er næsta skammtímamarkmið, og efst í tröppunum er langtímamarkmiðið og mikilvægt er að taka eitt þrep í einu til að ná langtímaárangri.

Það er margt fleira sem gott er að hafa í huga við markmiðssettningu. Til dæmis er gott að skrifa niður markmiðin og hafa þau á stað sem þú sérð reglulega (t.d. á ísskápnum, náttborðinu osfrv).  Einnig getur verið gott að meta markmiðin reglulega og endurskoða.

Allt skiptir þetta máli þegar kemur að því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Mikilvægt er að hafa í huga að allir lenda í einhverskonar hindrunum á leið sinni að langtímamarkmiðinu. Þá þarf að endurmeta stöðuna og setja sér ný markmið.

Það sem greinir þá sem ná langt frá öðrum er sá eiginleiki að geta tekist á við óvæntar og erfiðar aðstæður, hvort sem það eru meiðsli eða eithvað annað, og halda áfram sama hvað bjátar á.

bottom of page